Jæja, þá erum við formlega komin inn á seinasta þriðjunginn og erum ekkert smá fegin yfir því. Þá kannski fer þetta að styttast eitthvað hjá okkur. En svona undanfarnar vikur hefur okkur fundist tíminn lítið líða.
Þær helstu fréttir eru að við erum við alveg ágætis heilsu. Mamma er reyndar eitthvað slæm í grindinni í dag og átti erfitt í vinnunni. En það má svo sem líka rekja til þess að við vorum allan daginn í vinnunni í staðinn bara til hádegis. En svoleiðis verður það út þessa viku og næstu en í staðinn fáum við fullt tveggja vikna frí í lok júlí svo það eru ágætis skipti.
Við erum alveg að brjálast úr hita þessa dagana, það virðist bara aldrei vera nógu kallt. Alveg sama hvar við erum. En er það nú allra verst á næturna þegar mömmu er heitt og á erfitt með að koma sér fyrir. En ég er víst eitthvað að þvælast fyrir svefnvenjunum hennar. Svo erum við orðin svo dugleg að vakna að við erum fyrileitt komin á fætur upp úr 6 leitinu sem er alveg út úr karakter fyrir mömmu þar sem henni finnst svo gott að lúra. Hún heldur að ég sé að venja sig við varðandi hvenær ég hyggst ætla að vakna í framtíðinni. Við sjáum nú til um það.