Nei, ég er ekki komin/n ennþá en það er ekki langt í það ....
Þá erum við mamma búin að fara í seinasta mónitorinn uppi á lansa og leit auðvitað allt saman alveg frábærlega vel út hjá mér. Ég var reyndar sofandi fyrri hlutann af mónitorinum svo það voru engar hreyfingar en svo þegar ég vaknaði sofnaði mamma svo að hún náði voðalega lítið að merkja við hreyfingar hjá mér. En ljósan sagði að þetta væri mjög fínt rit þegar við vorum búin og að mamma þyrfti ekkert að hafa áhyggjur af því að hafa ekki merkt við.
Eftir þó nokkra bið hittum við lækninn, hana Ragnheiði, og hún þreyfaði leghálsinn og fengum við þær fregnir að við erum víst komin með 3 cm í útvíkkun og full mýkt ef það var orðið sem hún notaði. Sem þýðir víst að það er eitthvað í gangi hjá okkur mömmu. Hún hreyfði við belgnum svo að það gæti gert eitthvað fyrir okkur í kvöld en sagði okkur ekki að búast við því. En í staðinn fyrir að gangsetja okkur eins og hún var búin að tala um, eigum við að mæta á morgun upp á fæðingardeild klukkan 8:30 og þá verður belgurinn minn sprengdur og þannig bara ýtt við mér fyrst við erum komin svona vel af stað. Svo að það lítur bara út fyrir að ég sé á leiðinni í heiminn á morgun eða hinn. Vonandi bara strax á morgun fyrst belgurinn verður sprengdur svona snemma.
Þegar þetta var allt búið fórum við í heimsókn til Heiðu sem er enn uppi á sængurkvennadeild og spjölluðum aðeins við hana og litla prinsinn hennar sem kom í heiminn á sunnudaginn. Hann er ekkert smá sætur.