Það hefur ýmislegt gerst á undanförnum dögum. Ég hleyp út um allt eins og ég get og finnst alveg voðalega gaman að skoða heiminn, enda er ekki sá staður sem ég hef ekki verið eitthvað að bardúsast í. Undanfarið hef ég, eða svo að virðist, þróað upp einhvernskonar radar sem segir mér til um þegar hurðir eru opnar og hleyp ég þá af stað til að reyna að komast inn um þær.
Einnig tala ég orðið allan daginn, vakna svo gott sem malandi og hætti hreinlega bara ekki fyrr en ég fer að slappa af áður en ég fer að sofa.
Dans er einnig í uppáhaldi þessa dagana og dansa ég orðið við tónlist, einnig ef einhver segjir "dansa dansa" við mig. En þá fer ég yfirleitt upp að hillunni sem er undir sjónvarpinu - en þar er best að dansa! En ég hef nú verið að sækja í mig veðrið og dansa orðið út um allt hús.
Þessa dagana er "týndur" í miklu uppáhaldi og er ég oft "týndur" en þá sæki ég teppið mitt og breiði upp fyrir haus og kíki svo undan á hinum ólíklegustu tímum.
Á föstudaginn eru tvær vikur þangað til að ég hitti ömmu og afa í Danmörku, en við pabbi og mamma ætlum þangað yfir helgina. Förum út á seinni partinn á fimmtudegi og komum til baka á sunnudeginum. Það verður alveg rosalega gaman.
Svo eru það þær fréttir að mamma og pabbi hafa loksins tekið ákvörðun um hvar við ætlum að búa og varð Hafnarfjörðurinn fyrir valinu en ég mun koma til með að verða gablari undir haustið. Við fengum víst lóð að Glitvöllum og erum við öll voðalega spennt yfir því. Verður alveg rosalega gaman að fá mitt eigið herbergi, enda orðinn svona stór og svo vakna ég líka oft orðið við mömmu og pabba þegar þau eru að fara að sofa eða koma inn í herbergið.